Atburður

18. sep. 2011

Skýrsla um áhrif bresku hryðjuverkalaganna dreift á Alþingi

Eftirfarandi er fréttatilkynning Fjármálaráðuneytisins varðandi skýrslu fjármálaráðherra um áhrif bresku hryðjuverkalaganna:

"Skýrslu fjármálaráðherra um mat á áhrifum af beitingu Breta á lögum um varnir gegn hryðjuverkum, glæpum og um öryggi fyrir íslensk fyrirtæki, hefur nú verið dreift á Alþingi en skýrslan var gerð að beiðni þingflokks Sjálfstæðisflokksins.

Fjármálaráðuneytið leitaði til IFS Greiningar  varðandi gagnaöflun, sérfræðivinnu og gerð skýrslunnar og ákveðið var í upphafi að beina sjónum að íslenskum inn- og útflutningsfyrirtækjum í samræmi við beiðni þingmannanna, en undanskilja banka og önnur fjármálafyrirtæki. Voru tekin viðtöl við stjórnendur tæplega 40 stjórnenda, bæði með stöðluðum spurningalistum og nánari umfjöllun um smáatriði hjá hverju fyrirtæki fyrir sig. Einnig var leitað til Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitsins, fræðimanna innan háskólasamfélagsins og annarra sérfræðinga. Þá styðst skýrslan við ýmsar aðrar heimildir, svo sem skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, hagtölur frá Hagstofunni, fréttaveitur ofl. Skýrslan tvinnar þessar upplýsingar saman og fer yfir aðdraganda beitingar hryðjuverkalaganna, erlenda fréttaumfjöllun og áhrifin á fyrirtækin.

Höfundar skýrslunnar gera veigamikla fyrirvara við niðurstöður hennar þar sem erfitt er að kostnaðarmeta neikvæð áhrif (bein og óbein) á rekstur fyrirtækja sem og að greina þau áhrif frá öðrum þáttum sem ollu erfiðleikum fyrir íslensk fyrirtæki og tengdust því hruni sem íslenskt efnahagslíf varð fyrir árið 2008. Ein meginniðurstaða skýrslunnar er að fyrirtækin áttu í miklum erfiðleikum með að skilja á milli áhrifa hryðjuverkalaganna og annarra þátta hrunsins. Ljóst er þó að þau urðu fyrir óbeinum áhrifum af beitingu laganna með þeim hætti að þættir sem sneru beint að fyrirtækjunum mögnuðust eða snerust á verri veg.

Í skýrslunni er tekið fram að fyrirtækin sjálf segjast með engu móti geta metið eigið fjárhagslegt tjón af völdum þessara þátta þar sem erfitt er að skilja það tjón frá öðrum þáttum hrunsins. Því þarf að byggja fjárhagslegt mat á hagstærðum og samkvæmt slíku mati, og öllum fyrirvörum, er heildartjónið metið í skýrslunni á bilinu tveir til níu milljarðar króna með líklegasta gildi nálægt 5 milljörðum. "

Frétt á heimasíðu Fjármálaráðuneytis
http://www.fjarmalaraduneyti.is/forsidufrettir/nr/14627

Til baka
  • IFS
  • Suðurlandsbraut 24
  • 108 Reykjavík
  • Sími: 533 4600
  • Fax: 533 4601
  • ifs@ifs.is