Atburður

20. apr. 2011

IFS Greining og Landsbankinn skrifa undir þjónustusamning

IFS Greining ehf. og Landsbankinn hafa skrifað undir þjónustusamning um kaup Landsbankans á greiningarþjónustu á sviði efnahagsmála- og markaðsgreininga. Jafnframt er að því stefnt að IFS Greining og Landsbankinn vinni saman að því að þróa víðtækari þjónustu á þessu sviði innan bankans.

Markmiðið með samningnum er að veita viðskiptavinum Landsbankans aðgang að óháðri og vandaðri ráðgjöf og afstýra hugsanlegum hagsmunaárekstrum milli starfsviða bankans.

Með samningnum skuldbindur IFS Greining sig til að gefa út með reglubundnum hætti efni um efnahagsmál og gjaldeyrismál og birta efnahagsspár, verðbólgu- og stýrivaxtaspár, greina skuldabréfa- og fasteignamarkað og fjalla um innlendan og erlenda hlutabréfamarkaði ásamt því að útbúa verðmat fyrir þau félög sem skráð eru á Íslandi. Þessar upplýsingar munu nýtast starfsmönnum Landsbankans við ráðgjöf til viðskiptavina.

Ólafur Ásgeirsson stofnandi og eigandi IFS Greiningar segir að samningurinn sé afar ánægjulegur og að það sé virkilega gaman að sjá Landsbankann í hópi viðskiptavina félagsins. "Við hjá IFS hlökkum til samstarfsins og munum leggja okkur sem best fram við að stuðla að því að bankinn nái settum markmiðum með samningnum."

Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir framkvæmdastjóri Eignastýringar Landsbankans og Hreiðar Bjarnason framkvæmdastjóri Markaðar og Fjárstýringar segja samninginn vera mikilvægt skref í þeirri stefnu sem bankinn hefur mótað á sviði verðbréfaviðskipta. "IFS Greining er áreiðanlegur samstarfsaðili sem tryggja muni vel framsettar upplýsingar til viðskiptavina. Stefna bankans sé að veita óháða og vandaða ráðgjöf og samstarf við IFS er mikilvægt tæki til þess."

Fréttatilkynning Landsbankans á heimasíðu bankans:  Fréttatilkynning Landsbankans

Til baka
  • IFS
  • Suðurlandsbraut 24
  • 108 Reykjavík
  • Sími: 533 4600
  • Fax: 533 4601
  • ifs@ifs.is